Kjarasamningar FF við ríkið - núverandi vinnumat burt!


Félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara hafa verið án kjarasamnings síðan í lok október 2016.  Samningnum var hins vegar framlengt af formanni FF um eitt ár, fram til október loka 2017, án aðkomu félagsmanna.

Samningurinn sem við fáum greitt eftir í dag, var undirritaður á vormánuðum 2014. Með honum kom löngu tímabær launaleiðrétting en einnig var tekið upp vinnumat.
Margra spurninga var spurt áður en gengið var til atkvæðagreiðslu um samninginn 2014, margir voru hræddir við vinnumatið og þann glundroða sem gæti fylgt því. Samningarnir voru á endanum samþykktir enda var okkur félagsmönnum tjáð að við fengjum að kjósa um vinnumatið í næsta samningi, loforð sem hefur ekki verið efnt.

Vinnumatið hefur reynst virkilega snúið í framkvæmd, mikið ósætti hefur skapast á milli kennara, mat áfanga er oft á tíðum mjög ranglátt, nemendahópar hafa stækkað og kennari veit ekki hvernig vinna hans er metin fyrr en þrjár vikur eru liðnar af önninni.

Kennurum var sagt að vinnumatið væri "gólf", svona eins og allir kjarasamningar og við ættum bara að sækja frekari greiðslur fyrir áfanga til okkar stjórnenda, því miður er ekki gert ráð fyrir því í reiknilíkani framhaldsskólanna.

Miðað við þær upplýsingar sem við höfum úr núverandi samningaviðræðum þá á að festa vinnumatið í sessi með einhverjum úrbótum. Ég óttast að þessar úrbætur eigi eftir að flækja vinnumatið enn fekar. Stjórnendum framhaldsskólanna er vorkunn að vinna úr þeim sýnisdæmum sem koma með næsta samningi ef fer fram sem horfir, tíma þeirra er betur varið í önnur og mikilvægari verkefni.

Nái ég kosningu til formanns Félags framhaldsskólakennara þá mun ég beita mér fyrir því að vinnumatið verði tekið út í núverandi mynd. Við verðum að fá einfaldara matskerfi sem styður við nýsköpun og framþróun menntunar á framhaldsskólastigi.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Tíðindi dagsins

Framboðsfundur í Gerðubergi

Vinnumat...og hvað svo?