Námsleyfi framhaldsskólakennara

Mig langar í þessari hugleiðingu að fjalla um námsleyfi framhaldsskólakennara og viðra hugmyndir að viðbótum þeim tengdum.

Á hverju ári sækir mikill fjöldi framhaldsskólakennara um námsleyfi, einungis rúmir þrír tugir fá samþykkt leyfi. Yfirleitt er það þannig að kennarar hafa sótt um námsleyfi í mörg skipti áður en þeir fá úthlutun. Hver kennari getur vænst þess að fá námsleyfi einu sinni á starfsævinni og það líklega á seinni hluta hennar.

Mig langar að viðra hér tvær hugmyndir í tengslum við námsleyfi, báðar gætu þær komið til umræðu við gerð kjarasamninga.

Fyrri hugmyndin er í tengslum við þá miklu þörf sem er á nýju námsefni í öllum greinum framhaldsskólans. Á hverju ári ætti að úthluta 6-8 námsleyfum til kennara sem hyggjast vinna að nýju námsefni. Kennararnir þurfa að senda inn hugmyndir og drög að námsefninu með umsóknunum. Að loknu námsleyfnu ætti að standa eftir námsefni sem hæft væri til útgáfu og notkunar í kennslu í hinum ólíku námsgreinum. Þessi námsleyfi væru óháð hinum námsleyfunum, kennari gæti sumsé fengið a.m.k. tvö námsleyfi á starfsævinni. Þetta "námsefnis-leyfi" er eins og listamannalaun, kennara gefst tækifæri til þess að sinna því sem hann hefur menntað sig til og afraksturinn kemur mörgum til góða - þetta ætti að vera jákvætt innlegg inn í umræðuna um nýjungar og nýsköpun í kennslu.

Önnur hugmynd sem mig langar að viðra er sá möguleiki að kennari geti safnað yfirvinnu á einhverju tilteknu tímabili og tekið hana út sem skert starfshlutfall eða orlof, að sjálfsögðu er þetta valkvætt.

Hvernig kæmi þetta svo til með að ganga fyrir sig? Kennari fær ekki greidda út yfirvinnutíma sína heldur safnast þeir upp og getur kennari innan ákveðins tíma tekið þá út í formi orlofs eða skerts kennsluhlutfalls. Hver er ávinningurinn? Kennari getur valið að safna sér orlofstíma með þessum hætti og gæti mögulega farið í leyfi eina önn eða eitt skólaár. Kennari hefði það algjörlega á sínu valdi hvernig hann verði þessu leyfi og það kæmi ekki niður á möguleikum hans á því að sækja um hin námsleyfin. 

Seinni hugmynd mín kemur meðal annars fram í ljósi þess að Sjúkrasjóður Kennarasambands Íslands virðist ekki standa traustum fótum, meðal annars vegna þess að margir kennarar sækja til sjóðsins vegna álagstengdra veikinda sinna. Með því að safna upp yfirvinnutímum sem hægt væri að taka út í leyfi þá hefði kennari möguleika á því að "kúpla" sig út án þess að tapa launum.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Tíðindi dagsins

Framboðsfundur í Gerðubergi

Vinnumat...og hvað svo?