Samningaborðið og vilji félagsmanna

Í september 2016 gerði Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) könnun meðal félagsmanna í Félagi framhaldsskólakennara. Könnunin sneri að áhrifum vinnumats, sem tekið var upp í kjölfar kjarasamninga 2014.

Það er öllum ljóst sem lesa skýrsluna að mikil og megn óánægja er með vinnumatið, meirihluti félagsmanna vill vinnumatið burt!

Leyfi mér að setja hér inn nokkrar athugasemdir félagsmanna sem komu fram í opnum spurningum í könnun RHA. Þessar athugasemdir eru aðeins nokkrar af mjög mörgum.


"Vinnumatið ýtir undir gamaldags kennsluhætti. Það styður engan veginn við fjölbreytta kennsluhætti og fjölbreytt námsmat. Því miður styður það að lokapróf sé í áföngum sem er afturför. Vinnumat þarf því að taka tillit til fjölbreyttra kennsluhátta og fjölbreytts námsmats."
"Burt með þetta vinnumat sem hefur haft í för með sér aukna vinnu, lægri laun og meiri skerðingar sem er algjörlega óásættanlegt. Vinnumatið hefur leitt til meiri vinnu en ekki launahækkana. Kennarar hafa tapað áunnum réttindum sem barist hefur verið fyrir í mörg ár. Þetta vinnumatskerfi er stórt skref afturábak og hefur ekki gert annað en að valda sundrung í stéttinni og óánægju. Skammarlegt í einu orði sagt. Veit ekki til þess að læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, tölvunarfræðingar, flugstjórar og fleiri stéttir fái skerðingu á launum fyrir rútínerað starf svo sem að gera hjartaaðgerð, taka blóðþrýsting á skjólstæðingum sínum, fljúga sömu flugleið aftur og aftur og svona mætti lengi telja, en kennurum er gert að samþykkja það að fá lægri laun fyrir að kenna sama áfangann aftur og aftur, þrátt fyrir að aldrei sé um sömu nemendur að ræða! Hreint út sagt skammarlegt þetta vinnumat í alla staði og ég vil það burt og mun aldrei skrifa undir samninga meðan vinnumat er til staðar."
"Nemendafjöldi á ekki að ráða kaupinu mínu. Ég á að vita hvaða laun ég fæ strax og vinna hefst, ekki eftir þrjár vikur. Kennarar sem kenna fámenna áfanga eiga ekki að líða fyrir fámennið. Með nýju námsmati verður nám fátæklegra því fámennir áfangar eru felldir niður. Skólar setja þak á nemendafjölda til að þurfa ekki að borga yfirvinnu."
"Nemendafjöldi á ekki að ráða kaupinu mínu. Ég á að vita hvaða laun ég fæ strax og vinna hefst, ekki eftir þrjár vikur. Kennarar sem kenna fámenna áfanga eiga ekki að líða fyrir fámennið. Með nýju námsmati verður nám fátæklegra því fámennir áfangar eru felldir niður. Skólar setja þak á nemendafjölda til að þurfa ekki að borga yfirvinnu."


Hvernig hefur verið unnið með niðustöður könnunar sem RHA gerði? Mér sem almennum félagsmanni, trúnaðarmanni og formanni félagsdeildar er ekki kunnugt um að samninganefnd og stjórn FF sé að vinna í þá átt að semja vinnumatið í burtu.

Ég tel það skyldu formanns að fylgja eftir skoðanakönnun sem  liggur fyrir um vinnumatið, enda situr formaður í umboði félagsmanna sinna.

Hvet félagsmenn til þess að kynna sér skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri.

Nýtum kosningaréttinn og kjósum breyttar áherslur!


Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Vinnumat...og hvað svo?

Tíðindi dagsins

Hver er Guðmundur Björgvin?